Árið 2018

Tímalína ársins

Árið 2018 var sögulegt hjá félaginu fyrir margra hluta sakir en hæst ber að Sýn hf. leit dagsins ljós sem nýtt sameinað fyrirtæki á sviði fjarskipta og fjölmiðlunar. Fyrsta starfsár Sýnar einkenndist af framsækni, metnaði og áskorunum. Við tökum mikinn lærdóm úr árinu 2018 og gleðjumst um leið yfir margs konar velgengi sem öflugt starfsfólk Sýnar skóp.

Janúar
Fokk Ofbeldi
Vodafone og UN Women tóku höndum saman í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Vodafone er stoltur styrktaraðili UN Women og Fokk Ofbeldi-herferðar þeirra sem fer m.a. fram með sölu á Fokk Ofbeldi-húfum. Fokk Ofbeldi-herferðinni er ætlað að vekja fólk til vitundar um ofbeldi gegn konum og stúlkum.
Febrúar
Vodafone bakhjarl KSÍ
Forveri Sýnar, Fjarskipti, gerði í febrúarbyrjun samstarfssamning við Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) um að gerast einn af bakhjörlum sambandsins en bakhjarlar hafa það sameiginlega markmið að auka áhuga á knattspyrnu, styðja við starfsemi landsliða karla og kvenna og efla grasrótarstarf um land allt. Samstarfssamningurinn gildir í tæp þrjú.
Febrúar
Umhverfisvænt hátæknigagnaver rís
Fyrsta gagnaver Reykjavíkur verður reist á Korputorgi en samningar þess efnis voru undirritaðir á Korputorgi í lok febrúar. Um er að ræða umhverfisvænt hátæknigagnaver í eigu Opinna kerfa, Vodafone á Íslandi, Reiknistofu bankanna og Korputorgs ehf. Allt að 5 þúsund fermetra nýbygging rís sem byggð verður í áföngum.
Mars
Framtíðarhúsnæði tryggt
Nýtt sameinað fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtæki Fjarskipta hf. og 365 ljósvakamiðla náði samningum við fasteignafélögin EIK og Reiti um framtíðarhúsnæði starfseminnar. Fyrirtækið hefur nú allt húsnæðið að Suðurlandsbraut 8 til afnota og rými í hluta hússins að Suðurlandsbraut 10, auk samliggjandi bakhúss.
Mars
Sýn hf. verður til
Samþykkt var á aðalfundi Fjarskipta hf. þann 22. mars að nafnabreyta félaginu og varð Sýn nýtt heiti á sameinuðu félagi Vodafone og sameinaðrar fjölmiðlastarfsemi sem innifelur meðal annars Stöð 2, Stöð2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og Xið 977. Sýn er regnhlífavörumerki yfir 20 núverandi vörumerkja og framtíðar vörumerkja.
Apríl
Fréttir berast af sæstreng
Fjölmiðlar sögðu frá því að stjórnendur Sýnar, í nafni Vodafone á Íslandi, hefðu átt í viðræðum við stjórnvöld um lagningu nýs sæstrengs frá Íslandi til Evrópu og að verkefnið væri í samvinnu við Vodafone Group. Fram kom að verkefnið væri á þróunarstigi og óljóst hvort af því yrði.
Apríl
Konur í upplýsingatækni stofna samtök
VERTOnet, hagsmunasamtök kvenna í upplýsingatækni voru stofnuð í höfuðstöðvum Sýnar að Suðurlandsbraut en Vodafone á Íslandi er helsti styrktaraðili samtakanna. Höfuðmarkmið þeirra er að fjölga konum og efla hag þeirra í tæknigeiranum.
Maí
Verðbreytingar í þágu neytenda
Valdir sjónvarpspakkar Stöðvar 2 stækkuðu, verð á öðrum lækkaði og stakar áskriftir voru aftur í boði. Fimm mánuðum eftir sameiningu nutu neytendur og viðskiptavinir Sýnar ávaxta samrunans með skýrum hætti.
Maí
Vodafone tekur hástökk
Vodafone varð hástökkvari íslenskra fjarskiptafyrirtækja hvort sem kemur að fjölda á farsímamarkaði, vexti í gagnamagni, gagnatengingum og gagnvirku sjónvarpi (IPTV) á árinu 2017, samkvæmt riti Póst- og fjarskiptastofnunar, Tölfræði um íslenskra fjarskiptamarkaðinn 2017 sem kom út í maí.
Maí
Dúndur kosningasjónvarp á Stöð 2
Fréttamenn Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar miðluðu hörkupennandi kosningafréttum til almennings þegar sveitarstjórnarkosningar fóru fram. Um 80 manns komu að verkefninu sem var fyrsta stóra verkefni fréttastofunnar eftir sameiningu.
Júní
Sýn með á HM í knattspyrnu
Sannkölluð þjóðhátíðarstemning ríkti í Hljómskálagarðinum þegar leikir Íslands á HM fóru fram. Sýn og aðrir samstarfsaðilar KSÍ buðu upp á frábæra dagskrá fyrir leikina, s.s. aðstöðu fyrir alla fjölskylduna, leiksvæði fyrir börnin með hoppuköstulum, fótboltavelli og ýmsum leiktækjum.
Júní
Sýn fær gullvottun Microsoft
Sýn hf. hlaut gullvottun frá Microsoft á sviði fyrirtækjamarkaðar og skýjalausna. Gullvottunina hljóta fyrirtæki sem ná góðum árangri í sölu og eru með hæft starfsfólk í að veita þjónustu og ráðgjöf í tengslum við lausnir Microsoft. Gullvottunin þýðir að starfsmenn Sýnar hf. standast ítrustu kröfur Microsoft og eru í hópi þeirra sem hafa mestu þekkingu á lausnum Microsoft til fyrirtækja.
Júlí
Fyrstu skrefin í 5G
Vodafone á Íslandi, sem starfar undir hatti Sýnar, gangsetti fyrstu sendana sem byggja á fimmtu kynslóð farsímakerfa, það er 5G. Um er að ræða svokallaða léttbandstækni eða Narrowband IoT sem er hönnuð sérstaklega með samskipti tækja í huga. Þetta voru fyrstu skrefin í 5G væðingu félagsins.
Ágúst
Sýn stóreflir kerfin
Sýn stórefldi 3G/4G kerfi félagsins sumarið 2018 með nýjum sendum á mörgum stærri sumarhúsa- og ferðamannasvæðum. Einnig voru settir upp sex nýir 4G sendar á þjóðvegi 1 milli Akureyrar og Reykjavíkur eða á svæðum þar sem áður var bara GSM samband.
Ágúst
BUILD verðlaunar höfuðstöðvar Sýnar
Breska fagtímaritið BUILD verðlaunaði íslenska arkitekta hjá Yrki arkitektum ehf. fyrir vinnu þeirra við höfuðstöðvar Sýnar að Suðurlandsbraut 8 sem tímaritið útnefnir bestu innanhússhönnun skrifstofuhúsnæðis ársins 2018. Yrki arkitektar ehf. eru jafnframt útnefndir sem framsæknasta arkitektastofa ársins.
September
Hringskonur þakka Sýn
Hringskonur litu inn í höfuðstöðvar Sýnar í september og afhentu forsvarsmönnum Stöðvar 2 þakklætisvott fyrir rausnarlegt framlagt til Hringsins í lokaþætti „Allir geta dansað" síðastliðið vor. Allur ágóði vegna símakosninga í þáttunum rann til góðgerðarmála og varð Hringurinn fyrir valinu sem málefni lokaþáttarins.
September
Landssöfnun fyrir Landsbjörg
Þjónustuver Sýnar var óvenju vel mannað í september þegar ráðherrar, forstjórar, leikarar, tónlistarmenn, starfsfólk Sýnar og björgunarsveitarfólk sat við símana fyrir Landsbjörg og tók við stuðningi frá almenningi í beinni útsendingu. Nýtt myndver Stöðvar 2 var prufukeyrt við þetta tækifæri.
September
Tónskáldasjóður Bylgjunnar og Stöðvar 2 úthlutar
Tónskáldasjóður Bylgjunnar og Stöðvar 2 í samvinnu við STEF úthlutaði 9.950.000 kr. úr sjóðnum. Alls sóttu 87 um styrk úr sjóðnum en 55 hlutu styrk að þessu sinni. Hæstu styrkina hlutu Gyða Valtýsdóttir og Agent Fresco. Markmið sjóðsins er að styrkja tónskáld og textahöfunda til nýsköpunar á sviði tónlistar.
Október
Höfuðstöðvar baðaðar í bleiku
Bleika slaufan, árveknis- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameini hjá konum, fór fram í október. Sýn lagði átakinu lið og voru höfuðstöðvarnar við Suðurlandsbraut baðaðar í bleika litnum og starfsfólkið hélt Bleika daginn hátíðlegan.
Október
Tökur hefjast á Ísskápastríði
Tökur hófust á þriðju þáttaröðinni af Ísskápastríði í október. Í þáttunum fengu Eva Laufey og Gummi Ben til sín þjóðþekkt fólk sem keppir í matargerð en um er að ræða létta og skemmtilega þætti, sem snúast ekki bara um eldamennsku heldur einnig skemmtilegar umræður, grín og glens.
Október
Sýn styrkir Alzheimer-sýningu
Sýn styrkir margvíslega nýsköpun og verkefni af samfélagslegum toga en dæmi um slíkan stuðning er leiksýningin „Ég heiti Guðrún“ sem hefur farið sigurför um Norðurlöndin. Leikritið fjallar um Alzheimier-sjúkdóminn og fór á fjalirnar síðastliðið haust við góðar viðtökur áhorfenda.
Október
Suður-Ameríski draumurinn slær í gegn
Suður-Ameríski draumurinn sló í gegn hjá áhorfendum Stöðvar 2 en um 43,6% áskrifenda á aldrinum 12-80 ára horfðu á þáttinn en það gerir 18,7% áhorf óháð áskrift. Mest var áhorfið í hópi áskrifenda á aldrinum 25-54 ára eða 50,4%.
Október
Vestfirðir fá 4G
Tæknilið Vodafone fór eins og stormsveipur um Vestfirði á haustmánuðum til að 4G tengja landsfjórðunginn. Var uppsetning 4G senda kláruð m.a. á Suðureyri, Súðavík, Flateyri, Tálknafirði og Þingeyri. Einnig voru gangsettir 4G sendar á ströndum fyrir Hólmavík og Drangsnes.
Nóvember
Framúrskarandi Sýn
Sýn hf. hlaut nafnbótina „Framúrskarandi fyrirtæki 2018“ en það er greiningarfyrirtækið Creditinfo sem verðlaunar með þessum hætti fyrirtæki sem standa sig vel og stuðla að bættu viðskiptaumhverfi. Aðeins um 2% íslenskra fyrirtækja koma til greina sem Framúrskarandi fyrirtæki.
Nóvember
Viðurkenning fyrir íslenskunotkun
Sýn hf. var eitt sjö fyrirtækja sem fékk sérstaka viðurkenningu á Degi íslenskrar tungu og komst í úrslit um Hvatningarverðlaun viðskiptalífsins fyrir eftirtektarverða notkun á íslensku máli. Viðurkenninguna fékk Sýn fyrir nýyrðasmíði í þáttaröðinni „Ég er risaeðla” sem sýnd er á Hopster og fjallar um mismunandi risaeðlutegundir.
Nóvember
HR og Sýn í samstarf
Fulltrúar Sýnar og Háskólans í Reykjavík undirrituðu í nóvember samstarfssamning um ýmis þróunarverkefni í léttbandstækni IoT (e. Internet of Things). Samningurinn er til tveggja ára og veitir nemendum HR aðgang að léttbandskerfi Vodafone á Íslandi til prófunar og þróunar á léttbandslausnum.
Nóvember
Vinnuverndarvottunin ISO 45001
Sýn hf. lauk í lok nóvember vottunarferli félagsins samkvæmt vinnuverndarstaðlinum ISO 45001 og er fyrst íslenskra fyrirtækja til að fá vottunina samkvæmt nýrri útgáfu staðalsins. Erlendir úttektaraðilar voru við störf í haust í fimm daga í höfuðstöðvum Sýnar og fór fram viðamikil gagnasöfnun um verklag og virkni innan félagsins.
Nóvember
Breytingar í Færeyjum
Sýn og færeyska félagið Tjaldur komust að samkomulagi um helstu skilmála í viðskiptum sem fela munu í sér samruna Hey, dótturfélags Sýnar í Færeyjum, og Nema, dótturfélags Tjaldurs. Hið sameinaða félag verður leiðandi fyrirtæki í Færeyjum í upplýsingatækni og fjarskiptum. Sýn eignast 49,9% hlut og Tjaldur 50,1% hlut í sameinuðu félagi.
Desember
Jólagleðin fölskvalaus
Starfsfólk Sýnar gerði sér glaðan dag með margvíslegum hætti í desember og var jólapeysudagurinn einn af hápunktum jólamánaðarins. Óhætt er að segja að húmorinn hafi fengið að njóta sín í botn við val á jólapeysum.
Desember
Fréttastofan á Suðurlandsbraut 10
Langþráðum áfanga var náð þegar fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar flutti á Suðurlandsbraut, þar sem höfuðstöðvar og önnur starfsemi Sýnar hf. eru til húsa. Nýju bráðabirgðamyndveri fréttastofu Stöðvar 2 var slegið upp á framtíðarkaffistofu fréttastofunnar og gekk fyrsta útsendingin eins og í sögu.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.