Árið 2018

Samþætting að baki og sókn framundan

Kæru hluthafar

Síðasta starfsár var þungt. Mikil orka fór í kaup á eignum frá 365 og samþætting í framhaldi var erfiðari en áætlanir gerðu ráð fyrir.  Hluthafar hafa ekki farið varhluta af þessari þróun en gengisþróun hefur verið sérstaklega óhagfelld og hlutabréf fyrirtækisins lækkað um hátt í helming á síðustu 12 mánuðum þar sem væntingar um virðisaukningu samruna hafa ekki gengið eftir. Fyrri hluta árs var það einkum meiri kostnaður við sameiningu sem hafði áhrif en seinni hluta árs harðnaði einnig samkeppni mjög á markaði sem leiddi til viðskiptavinaveltu, lækkun meðaltekna á viðskiptavini og aukins sölukostnaðar sérstaklega á síðasta fjórðungi. Áætlanaferli og upplýsingakerfi félagsins gripu því miður undirliggjandi þróun of seint þar sem stjórn félagsins fékk aðeins upplýsingar um áhrif þessarar óhagfelldu þróunar í desember í tengslum við nóvember uppgjör félagsins. Strax í kjöflarið jókst aðkoma stjórnar að rekstri fyrirtækisins sem leiddi af sér skipulagsbreytingar og að lokum að hafist var handa við nýtt ráðningarferli forstjóra. Bein innkoma formanns stjórnar í daglegan rekstur er ekki eitthvað sem gerist á hverjum degi á íslenskum hlutabréfamarkaði en stjórn taldi nauðsynlegt að stíga beint inní rekstur til að brúa bilið fram að ráðningu nýs forstjóra.  Eins er ljóst að samþættingu er lokið og nú þarf markaðssókn að hefjast, það eru því spennandi tímar framundan hjá fyrirtækinu og við erum komin útúr erfiðleikatímabilinu þó samkeppni á markaði sé áfram hörð.  Félagið hefur klárað samþættingu og býr að miklum og breiðum tekjuskapandi eignum sem munu hjálpa því að þjóna og sækja fram gagnvart viðskiptavinum á næstu árum. Hluthafar hafa síðan lokaatkvæðið með þessar ráðstafanir því á aðalfundi geta þeir ákveðið að veita núverandi stjórn brautargengi og þar með styðja þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, eða kosið aðra til stjórnarstarfa og hafnað þar með störfum núverandi stjórnar.

Næstu misseri

Fjárfestingar tengdar yfirtökunni eru að baki og því mun sjóðsflæði batna hratt á þessu ári og fyrirtækið er vel í stakk búið til að greiða hratt niður skuldir tengdar kaupunum.  Stefna fyrirtækisins á næstu árum þarf að hverfast um viðskiptavininn og þjónusta við hann á að vera í fyrirrúmi.  Fjarskiptafyrirtæki um allan heim eru að breytast úr því sem kallað er verkfræðileg nálgun (e. engineer based) yfir í viðskiptavinadrifna (e. customer driven).  Uppbygging kerfa er ekki lengur forgangsatriðið heldur þjónustan við viðskiptavini.  Við sjáum miklar breytingar í Evrópu þar sem hugmyndir eru um að skipta fjárskiptafyrirtækjum í tvennt, annars vegar kerfi og aðra innviði og hins vegar markaðs- og sölufyrirtæki.  Sýn stendur einstaklega vel gagnvart þessari þróun.  Við eigum ekki stór kerfi sem eru að úreldast og höfum sterka samstarfssamninga við fremstu aðila á markaðnum, Gagnaveitu Reykjavíkur og Sendafélagið.  Þannig getur Sýn takmarkað fjárfestingar og áhættu án þess að það bitni á gæðum þjónustunar við viðskiptavini sína.

„Uppbygging kerfa er ekki lengur forgangsatriðið heldur þjónustan við viðskiptavini“ Heiðar Guðjónsson

Hluthafar

Á árinu seldu 365 ríflega 10% hlut sinn í félaginu en kaupendur voru breiður hópur innlendra fjárfesta.  Undirritaður bætti við sig mest af hlutum á árínu af öllum hluthöfum.  Að öðru leyti hefur verið stöðugleiki í hluthafahópnum sem hefur tekið litlum breytingum.  Það er von mín að hluthafar hafi trú á þeim breytingum sem verið er að grípa til og horfi til lengri tíma enda er nú kominn tími til að uppskera eftir mikla vinnu við kaup og samþættingu á nýjum sviðum fyrirtækisins.

Breytingar á árinu

Hildur Dungal, varaformaður, víkur úr stjórn vegna breytinga á starfi hjá Samgönguráðuneytinu, henni eru þökkuð mikil og góð störf og einstaklega traust samstarf.  Eins kveðjum við Stefán Sigurðsson, forstjóra, en hann taldi rétt að nýr forstjóri tæki þá markaðssókn sem framundan er.  Stefán á skilið mikið hrós fyrir þá óeigingjörnu vinnu og fórnfýsi sem hann hefur sýnt á krefjandi tímum.  Eins eru heilindi hans gagnvart starfsfólki og stjórn tilefni til sérstaks hróss. Ég vil þakka fyrir traustið sem hluthafar hafa sýnt mér og stjórn með því að kjósa okkur til starfa.  Ég mun gera allt sem ég get til að standa undir því trausti.

Heiðar Guðjónsson

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.