Árið 2018

Sterkar stoðir sameinaðs fyrirtækis til framtíðar

Fyrsta ár sameinaðs fyrirtækis er að baki þar sem stórum verkefnum hefur verið lokið og er félagið fjárhagslega sterkt og með mikil tækifæri í breiðari starfsemi. Óhætt er hins vegar að viðurkenna að þær væntingar sem bundnar voru við reksturinn árið 2018 og horfur fyrir 2019 hafa ekki gengið eftir. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Árið hófst með meiri samrunakostnaði en búist var við en seinni hluta árs var mikil samkeppni sem hafði bæði áhrif til lækkunar meðalverðs á markaði, leiddi til aukins brottfalls og auk hækkunar á sölukostnaði sem blandaðist ofan í gengisveikingu íslensku krónunnar. Einnig jók óvissa í íslensku efnahagslífi og hnökrar við sameiningu reikningakerfa við áskoranir seinni hluta ársins. Það má því segja að árið 2018 hafi flest farið á móti fyrirtækinu og afkomuhorfum þess sérstaklega á seinni hluta árs.

Samruninn ógnaði Símanum

Samkeppni og undirboð höfðu ekki síst mikil áhrif á síðasta ársfjórðungi og á breytingu afkomuhorfa fyrirtækisins fyrir 2019. Ljóst er að stærsta og markaðsráðandi aðilanum á markaðnum þótti sér mjög ógnað með samrunanum, fór seinni hluta ársins mjög hart fram og bauð af miklum krafti nýjum viðskiptavinum frítilboð af öllum þjónustuþáttum í marga mánuði. Þessi frítilboð í samspili við ólöglega synjun Símans að bjóða sitt ólínulega efni yfir sjónvarpskerfi annarra fjarskiptafyrirtækja hefur haft mikil áhrif á allan fjarskiptamarkaðinn á árinu. Þrátt fyrir miklar kvaðir, sem eiga að koma í veg fyrir að félagið láti stjórnast af markaðsráðandi stöðu sinni í innviðum, er ljóst að megin viðskiptastefna Símans snýst um að verja stöðu Mílu. Ástæða þessarar viðskiptastefnu er einföld: aðgangstengingar í Mílu eru með nálægt 50% EBITDA framlegð, mun hærri en önnur starfsemi samstæðunnar sem gerir það að verkum að öll viðskiptastefna og rekstur samstæðunnar snýst um að verja fjölda tenginga í innviðafyrirtækinu. Í mikilli framlegð Mílu er fólgin efnahagslegur styrkur fyrir samstæðuna sem önnur félög á markaði eiga erfitt með að keppa við. Hátt tilboð í enska boltann er birtingarmynd þessa þar sem hár kostnaður við að kaupa réttin er án efa réttlættur með að verja og fjölga tengingum í innviðafyrirtækinu. Þrátt fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun, eftirlitsaðili fjarskiptamarkaðarins, hafi þegar úrskurðað Símann brotlegan við fjölmiðlalög og sektað félagið um 9 milljónir króna fyrir að synja öðrum fjarskiptafyrirtækjum dreifingu á ólínulegu sjónvarpsefni Símans yfir sín kerfi, hefur félagið ekki látið af brotum sínum. Þessi hegðun kemur einnig niður á neytendum sem þurfa að skipta um dreifingaraðila til þess að geta notið mikilvægs sjónvarpsefnis. Á sama tíma býr Sýn við kvaðir um að selja mikilvægt sjónvarpsefni sitt yfir öll fjarskiptakerfi sem er óréttlát skekkja sem ekki verður við unað. Til að tryggja öfluga samkeppni og bestu þjónustu við neytendur er mikilvægt að eftirlitsaðilar taki sem fyrst fast á þessum lögbrotum eina lóðrétt samþætta markaðsráðandi aðila markaðarins.

„Samkeppni og undirboð höfðu ekki síst mikil áhrif á síðasta ársfjórðungi og á breytingu afkomuhorfa fyrirtækisins fyrir 2019“ Stefán Sigurðsson

Sem fyrr segir hefur samkeppni á fjarskiptamarkaði verið hörð síðustu ár og var ákvörðun Sýnar um kaup á fjölmiðlastarfsemi liður í því að bregðast við þeirri stöðu með því að breikka vöruframboð til viðskiptavina og nýta betur fastan kostnað í starfsemi félagsins. Fjölmiðlar Sýnar hafa gengið vel í gegnum samrunann þar sem Bylgjan hefur yfirburði í hlustun á við aðrar útvarpsstöðvar, Vísir.is hefur verið að taka fram úr Mbl.is á síðustu vikum sem vinsælasti vefur landsins og áhorf á sjónvarpsstöðvar félagsins hefur aukist frá kaupum. Þær grunnástæður sem lágu til grundvallar samrunanum eiga því jafnvel vel í dag og áður enda er samþætting fjarskipta og fjölmiðlunar í takt við það sem er að gerast alþjóðlega, verkefnið framundan er að nýta tækifæri í breidd eigna félagsins til að skapa meiri ábata fyrir hluthafa og neytendur.

„Fjölmiðlar Sýnar hafa gengið vel í gegnum samrunann þar sem Bylgjan hefur yfirburði í hlustun á við aðrar útvarpsstöðvar“ Stefán Sigurðsson

Samrunaverkefnum nánast lokið

Mikill kraftur var í samþættingunni á árinu og náðust margir mikilvægir áfangar sem styrkja munu félagið til framtíðar. Flutningi fjölmiðlahlutans er að fullu lokið þar sem starfsmenn hafa verið sameinaðir á einn stað á Suðurlandsbraut 8 og 10 og sjónvarps- og útsendingastúdíói komið fyrir, auk þess sem reikningagerðarkerfi á sviði fjarskipta hafa verið sameinuð. Flestum samrunaverkefnum er lokið og félagið getur þar með minnkað verulega fjárfestingar sínar milli ára. Félagið er í mjög spennandi stöðu með verðmætar eignir og fjölbreyttar tekjustoðir sem styðja hver aðra við að tryggja að þjónusta Sýnar muni uppfylla þarfir viðskiptavina félagsins á tímum örra breytinga á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði. Félagið hefur alla burði til að blómstra á næstu árum, sérstaklega ef samkeppniskröfur til aðila sem reka sjónvarpsveitur verða jafnaðar af eftirlitsaðilum.

Spennandi sóknarfæri framundan

Sýn stórefldi farsímadreifikerfi félagsins á árinu sem 4G kerfið fyrirtækisins nær nú til meira en 99% landsmanna eftir búsetu og yfir 210 þúsund ferkílómetra á sjó og landi. Uppbygging og vöxtur á sviði IoT þjónustu til fyrirtækja hélt áfram þar sem félagið tók meðal annars þátt í þróunarverkefni með Reykjarvíkurborg sem fólst í uppsetningu fyrstu snjallljósastaurana á Klambratúni. Einnig voru gangsetttir fyrstu sendarnir sem byggja á fimmtu kynslóð farsímakerfa, það er 5G. Um er að ræða svokallaða léttbandstækni (Narrowband IoT) sem er hönnuð sérstaklega með samskipti tækja í huga. Fulltrúar Sýnar og Háskólans í Reykjavík undirrituðu í nóvember samstarfssamning um ýmis þróunarverkefni á þessu sviði. Samningurinn er til tveggja ára og veitir nemendum HR aðgang að léttbandskerfi til prófunar og þróunar á léttbandslausnum. Þetta voru fyrstu skrefin í 5G væðingu félagsins.

Sýn á hlut í fyrsta gagnaveri Reykjavíkur sem reist er á Korputorgi en búast má við að félagið byrji að fá tekjur af verkefninu árið 2020. Sýn hlaut gullvottun frá Microsoft á sviði fyrirtækjamarkaðar og skýjalausna sem endurspeglar uppbyggingu félagsins í betri og breiðari þjónustu til fyrirtækja þar sem staða fyrirtækisins er sem fyrr mjög sterk. Sýn hefur einnig beitt sér ásamt fleirum fyrir bættum gagnasamböndum til Íslands. Félagið rak verkefni með Vodafone Group og fleiri aðilum til að kanna kostnað við þriðja fjarskiptastrenginn og hefur átt í viðræðum við stjórnvöld og aðra aðila um samstarf á því sviði sem gæti skilað miklum ábata og samkeppnishæfni fyrir íslenskt samfélag.

„Grunnur félagsins er sterkur, hvort sem kemur að fjárhag, eignum, starfsfólki eða hluthöfum og því er ekki hægt annað en vera bjartsýnn til framtíðar fyrir hönd félagsins“ Stefán Sigurðsson

Áhersla er sem fyrr á langtímahugsun í rekstri Sýnar. Félagið endurnýjaði ISO 27001 vottun og fékk staðestingu á að vera fyrirmyndafyrirtæki í góðum stjórnarháttum fimmta árið í röð. Fyrirtækið lauk svo í lok nóvember vottunarferli félagsins samkvæmt vinnuverndarstaðlinum ISO 45001 og er fyrst íslenskra fyrirtækja til að fá vottunina samkvæmt nýrri útgáfu staðalsins.

Við tímamót

Það hafa verið forréttindi að fá traust stjórnar og hluthafa til að stýra félaginu síðustu fimm ár. Á þeim tíma hefur félagið styrkst og dafnað á krefjandi og síbreytilegum en hörðum samkeppnismarkaði. Grunnur félagsins er sterkur, hvort sem kemur að fjárhag, eignum, starfsfólki eða hluthöfum og því er ekki hægt annað en vera bjartsýnn til framtíðar fyrir hönd félagsins. Fyrirtækið er komið í sókn á nýju ári með aukningu í sölu auk þess sem þjónusta félagsins, sem hefur í gegnum tíðina verið aðalsmerki þess, er komin í mjög gott horf eftir flókinn samruna. Ég vil þakka starfsfólki félagsins fyrir frábær störf og samstarf sem og traust stjórnar, lánveitenda og hluthafa síðustu árin.

Stefán Sigurðsson, forstjóri

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.